Fjárhagur 2016

Vöru- og þjónustusala
2016
14.788 m.kr.
[2015: 13.332 m.kr.]
EBITDA
2016
1.021 m.kr. (6,9%)
[2015: 1.008 m.kr. (7,6%)]
Heildarhagnaður
2016
383 m.kr.
[2015: 328 m.kr.]
Handbært fé í árslok
2016
872 m.kr.
[2015: 809 m.kr.]
Veltufjárhlutfall
2016
1,42
[2015: 1,52]
Eiginfjárhlutfall
2016
33,7%
[2015: 28%]

Gengi hlutabréfa Nýherja

Gögn: Keldan.is

ÁVARP STJÓRNAR­FORMANNS
OG FORSTJÓRA

Stöðugleiki og áhugaverð sóknarfæri

Ánægjulegt ár er að baki hjá Nýherjasamstæðunni. Rekstur gekk vel og teljast síðustu tvö ár með þeim betri í sögu samstæðunnar. Afkoma á árinu var vel viðunandi og enn frekari skref voru stigin til að treysta stoðir félagsins til framtíðar. Þar horfum við sérstaklega til þess mannauðs sem félagið hefur á að skipa, þjónustugæða, lausnaframboðs og fjárhagslegrar stöðu. Stöðugleiki í rekstri og markviss uppbygging þekkingar eru nauðsynleg félögum eins og Nýherja og höfum við sjaldan verið í betri stöðu til að takast á við áhugaverða framtíð sem síbreytilegur heimur upplýsingatækni býður upp á.

Bættur fjárhagur

Stígandi var í rekstri félagsins á árinu og afkoma ágæt. Tekjur jukust um 11% og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam rúmum milljarði, eða um 7% af veltu. Heildarhagnaður var 383 milljónir og arðsemi eigin fjár því nálægt 20%. Fjórði árshluti síðasta árs var sá 12. í röðinni þar sem jákvæð afkoma er af rekstri samstæðunnar, en það telst lengsta tímabil stöðugleika og jákvæðrar afkomu frá stofnun Nýherja.

Fjórði árshluti síðasta árs var sá 12. í röðinni þar sem jákvæð afkoma er af rekstri samstæðunnar, en það telst lengsta tímabil stöðugleika og jákvæðrar afkomu frá stofnun Nýherja.

Með bættum rekstri hefur eigið fé aukist og tækifæri gefist til að endurfjármagna og greiða niður skuldir. Skuldastaða lækkaði umtalsvert á árinu og eigið fé stóð við lok þess í 34%, sem nálgast skammtímamarkmið stjórnar um að eigið fé sé að lágmarki 40%. Áfram verður unnið að því að styrkja fjármagnsskipan félagsins enda nauðsynlegt að skapa annarsvegar þol fyrir áföllum í rekstri og hinsvegar svigrúm til fjárfestingar í nýsköpun og lausnaþróun fyrir viðskiptavini. Stefna um útgreiðslu arðs tekur mið af mikilvægi stöðugrar þróunar og vaxtartækifæra í starfsemi upplýsingatæknifyrirtækja eins og Nýherja. Ekki er gert ráð fyrir útgreiðslu arðs að svo stöddu, enda teljum við að þannig sé best staðinn vörður um tekjumyndun til framtíðar og langtímavirði hluthafa í félaginu.

Viðskiptavinir og starfsfólk í forgrunni

Síðastliðin þrjú ár höfum við unnið eftir leiðarljósum sem endurspegla skuldbindingu okkar gagnvart mikilvægustu hagsmunaaðilum Nýherja – viðskiptavinum, starfsfólki og hluthöfum. Við höfum sett okkur það að verða leiðandi þjónustufyrirtæki, búa til eftirsóknarverðasta vinnustað í upplýsingatækni og skila auknu virði til hluthafa.

Eins og undanfarin ár, miðaði Nýherjasamstæðunni í rétta átt þegar horft er til þessara leiðarljósa. Áfram var unnið að því að styrkja þjónustuinnviði hjá Nýherja og dótturfélögum, með verulegri fjárfestingu í þróun lausna, ferlum, gæðastýringu og þjónustumenningu. Innri og ytri mælingar á þjónustu sýna umtalsverðar framfarir á milli ára, en samkvæmt þeim var 2016 metár hjá samstæðunni. Mikilvægustu staðfestinguna á góðum árangri á þessu sviði er þó að finna í viðbrögðum viðskiptavina sem leita til okkar vegna þess að hér telja þeir hag sínum best borgið. Það er í því sambandi ánægjulegt að geta þess að við höfum ekki áður fundið jafn mikinn áhuga nýrra viðskiptavina á samstarfi við Nýherja og dótturfélög. Sem dæmi um það má nefna að á síðasta ári réðumst við í viðamikil ný verkefni bæði hérlendis og erlendis, með öflugum fyrirtækjum á borð við Arion banka á Íslandi og SBAB Bank í Svíþjóð, svo einhver séu nefnd.

Við metum það svo að fjárfesting okkar í þjónustuinnviðum á sl. árum sé nú farin að skila sér fyrir alvöru, sem styrkir okkur í því að gera framúrskarandi þjónusta áfram að leiðarstefi í okkar rekstri og grundvelli samkeppnisforskots. Viðskiptavinir sem venjast því að Nýherji og dótturfélög sjái þeim fyrir hagkvæmum og áreiðanlegum lausnum hafa ekki ástæðu til að snúa sér annað.

Viðskiptavinir sem venjast því að Nýherji og dótturfélög sjái þeim fyrir hagkvæmum og áreiðanlegum lausnum hafa ekki ástæðu til að snúa sér annað.

Betri vinnustaður

Einn helsti styrkleiki Nýherja hefur allt tíð verið sá sterki hópur fólks sem þar starfar og helgar viðskiptavinum krafta sína. Á undanförnum árum höfum við lagt sérstaka áherslu á að skapa vinnustað sem rís undir nafni sem einn sá eftirsóknarverðasti í upplýsingatækni. Í fyrra fjárfestum við áfram í aðbúnaði starfsfólks og mannauðsferlum sem treysta starfsþróun og uppbyggingu þekkingar. Að auki voru sameiginlegir hagsmunir starfsfólks og hluthafa félagsins treystir þegar ríflega 70% starfsfólks samstæðunnar gerðu kaupréttarsamning í samræmi við samþykkt aðalfundar. Þessi ráðstöfun aðalfundar mæltist afar vel fyrir, enda endurspeglar hún vilja hluthafa til að deila ávinningi næstu ára með starfsfólki og undirstrikar þannig afstöðu þeirra til mikilvægis mannauðs.

Konguloargraf

Áherslur okkar í mannauðsstjórnun hafa skilað sér í dýrmætri þróun á viðhorfum starfsfólks Nýherjasamstæðunnar til fyrirtækisins og starfsumhverfis. Af nokkrum mælikvörðum sem við horfum til er árleg vinnustaðargreining framkvæmd af Gallup sá áreiðanlegasti. Könnunin hefur verið framkvæmd á sama hátt sl. 3 ár, en á myndinni hér til hliðar má sjá þróun niðurstaðna á 22 mikilvægustu spurningunum þessi ár m.v. stöðu gagnabanka Gallup. Í stuttu máli þá höfum við séð verulegar framfarir í flestum þeim þáttum sem spurt er um, t.d. stolti af vinnustað, endurgjöf, upplýsingamiðlun og hvatningu til þróunar.

Það er erfitt að meta nákvæmlega gildi þessarar þróunar fyrir Nýherjasamstæðuna, en óhætt að segja að það sé verulegt. Það liggur fyrir að geta okkar til að skapa virði fyrir viðskiptavini er ávallt í réttu hlutfalli við þann mannauð sem við búum að, þekkingu starfsfólks og vilja til að nýta hana í þágu viðskiptavina. Vinnustaðargreiningin bendir til að þar búum við vel, betur með hverju árinu sem líður. Þetta gerir okkur betur kleift að laða að, halda í og byggja upp þekkingu sem er lífsnauðsyn fyrirtækjum í okkar atvinnugrein.

Sterk staða og sóknarfæri

Hjá móðurfélagi Nýherja hefur umtalsverð fjárfesting í þjónustuinnviðum og stór verkefni fyrir kröfuharða viðskiptavini eins og Arion banka skilað sér í auknum áhuga fyrirtækja og stofnana á úthýsingu rekstrarþátta. Með háværari kröfum um hagræðingu, m.a. í fjármálageiranum, teljum við að Nýherji sé í sérlega góðri aðstöðu til að sinna slíkum verkefnum á hagkvæman og öruggan hátt og við finnum þegar fyrir töluvert meiri eftirspurn eftir þjónustu okkar en áður.

Samhliða því að treysta þjónustuinnviði og lausnaframboð Nýherja hefur rekstur og staða dótturfélaga verið að styrkjast. Tekjuvöxtur Tempo er kraftmikill sem fyrr, en hingað til höfum við eingöngu boðið Tempo-lausnir til þeirra sem jafnframt nota JIRA verkbeiðnakerfið frá Atlassian. Á síðasta ári var fjárfest verulega í tæknilegum innviðum sem munu gera okkur kleift að bjóða lausnir óháð Atlassian. Það má því gera ráð fyrir að til viðbótar tekjuvexti sem tengist Atlassian muni þessi fjárfesting skapa ný markaðstækifæri þegar fram líða stundir. Til að nýta þau sem best og auka virði hluthafa Nýherja, horfum við til mögulegrar aðkomu erlendra fjárfesta að Tempo. Mat á fýsileika þess hvort og hvernig af því verður hefur verið unnið í samstarfi við AGC Partners LLC í Boston. Vinnunni miðar vel en niðurstaða liggur hinsvegar ekki fyrir.

Hjá dótturfélögunum TM Software og Applicon á Íslandi og í Svíþjóð hefur aukin áhersla á lausnaþróun og áfangar með nýjum viðskiptavinum skapað veruleg sóknarfæri. TM Software hefur nýtt sterka stöðu með lausnir fyrir heilbrigðisþjónustu og ferðaiðnað til að skila góðri rekstrarniðurstöðu og áhugaverðri nýrri vöruþróun. Applicon á Íslandi hefur styrkt stöðu sína á markaði fyrir launa- og mannauðslausnir, bæði með eigin lausn í Kjarna sem og lausnir frá SAP. Mikilvægir áfangar hafa svo náðst í samstarfi félagsins við systurfélag í Svíþjóð, sérstaklega tengt nýju verkefni fyrir einn af stærstu bönkum þar í landi, SBAB Bank, um að félögin sjái bankanum fyrir kjarnakerfum sem þróuð eru af SAP og Applicon. Það verkefni, ásamt samskonar vinnu fyrir Landshypotek Bank, setur Applicon í áhugaverða stöðu sem lykilaðila á norrænum bankamarkaði fyrir kjarnakerfi.

Aukinn áhugi fjárfesta

Áhugi fjárfesta á Nýherja hefur farið stigvaxandi á síðustu misserum, fleiri hafa komið að félaginu og seljanleiki bréfa hefur aukist. Markaðsvirði jókst um 10% á sl. ári og stóð við lok þess í rúmum níu milljörðum. Síðan þá hefur það hækkað enn frekar. Það er mat okkar að þessi aukni áhugi skýrist annarsvegar af viðsnúningi í rekstri félagsins síðustu ár og hinsvegar sterkri stöðu Nýherjasamstæðunnar og vaxtartækifærum sem gerð er grein fyrir hér á undan. Félagið hefur smám saman fjölgað stoðum undir rekstrinum og aukið vægi starfsemi sem tengist hugbúnaði, ráðgjöf og þjónustu, sem til lengri tíma má gera ráð fyrir að skili aukinni arðsemi.

Við höfum góða reynslu af framtíðinni

Rekstur Nýherjasamstæðunnar hefur nú verið í ágætu jafnvægi síðustu þrjú árin og þegar á heildina er litið má segja að félagið hafi ekki staðið eins sterkt um all langt skeið. Þessi staða félagsins byggir á tvennu. Í fyrsta lagi byggir hún á ötulli vinnu framúrskarandi hóps starfsfólks á Íslandi, í Svíþjóð og Norður Ameríku. Þessi hópur, sem nú telur hátt í 600 manns, á sérstakar þakkir skildar fyrir öflugt starf sem skilað hefur góðum árangri. Í öðru lagi byggjum við á frábæru samstarfi við fjölda viðskiptavina í öllum atvinnugreinum. Við erum afar þakklát fyrir traustið sem þeir sýna okkur og lítum á það sem merki um að við séum á réttri braut. Hjá Nýherja segjum við gjarnan að við höfum góða reynslu af framtíðinni. Við höfum sjaldan verið eins tilbúin fyrir hana og nú.

Avarp finnurFinnur Oddsson,
forstjóri
Avarp ivarÍvar Kristjánsson,
formaður

Skipurit

Skipurit2016is

STJÓRNENDUR

Finnur

Finnur Oddsson

Finnur Oddsson forstjóri Nýherja hf. Hann tók við starfi aðstoðarforstjóra Nýherja í nóvember 2012 og við starfi forstjóra í ágúst 2013.

Finnur starfaði um fimm ára skeið sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Hann er með B.A. próf í sálfræði frá Háskóla Íslands, M.A. og Ph.D. gráðu í sömu grein frá West Virginia University í Bandaríkjunum og auk þess AMP í viðskiptafræði frá IESE á Spáni.

Finnur starfaði um árabil sem lektor við Háskólann í Reykjavík og stýrði þar meðal annars uppbyggingu á MBA námi HR og Stjórnendaskóla HR. Áður hafði hann starfað sem stjórnunarráðgjafi hjá Aubrey Daniels International í Bandaríkjunum.

Drofn

Dröfn Guðmundsdóttir

Dröfn Guðmundsdóttir er mannauðsstjóri Nýherja, en hún hóf störf hjá félaginu í febrúar 2013.

Dröfn hefur mikla reynslu á vettvangi mannauðsmála. Hún starfaði sem fræðslustjóri hjá Leikskólum Reykjavíkur og síðan sem mannauðsráðgjafi á Menntasviði Reykjavíkurborgar eftir sameiningu leik- og grunnskólamála frá 2003-2007. Hún starfaði sem mannauðsráðgjafi hjá Straumi fjárfestingabanka frá 2007 til 2009, fræðslustjóri Arion banka frá 2009-2011 og sem mannauðsstjóri hjá Fjármálaeftirlitinu 2012-2013.

Dröfn lauk B.A. prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands og framhaldsnámi í sálfræði með áherslu á vinnu- og skipulagssálfræði frá Háskólanum í Giessen í Þýskalandi.

Emil

Emil G. Einarsson

Emil Einarsson er framkvæmdastjóri Viðskipta- og þjónustustjórnunar og leiðir jafnframt viðskiptaþróun fyrir Nýherja.

Emil starfaði frá 1985 til 1992 sem kerfisfræðingur, m.a. við innleiðingu og hönnun nýrrar gjaldkeralausnar fyrir banka/sparisjóði á Íslandi og síðan sem söluráðgjafi hjá IBM Íslandi fyrir miðlungsstórar og stærri móðurtölvur. Við stofnun Nýherja árið 1992 var hann söluráðgjafi og hópstjóri til 1995 en frá þeim tíma var hann framkvæmdastjóri við sölu á IBM tölvubúnaði eða fram til febrúar 2005. Hann var framkvæmdastjóri Sölusviðs frá 2005-2011 og framkvæmdastjóri Vörusviðs 2011-2014.

Gunnarz

Gunnar Zoëga

Gunnar Zoëga er framkvæmdastjóri Lausna og þjónustu.

Gunnar hóf störf hjá TM Software árið 2003 og hefur síðan gegnt ýmsum störfum þar, hjá Skyggni og síðan hjá Nýherja, sem deildarstjóri Umsjár og framkvæmdastjóri Tæknisviðs.

Gunnar lauk B.S. prófi í viðskipta- og tölvunarfræði frá University of South Carolina og kerfisfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Gunnarp

Gunnar Már Petersen

Gunnar Petersen er framkvæmdastjóri fjármálasviðs Nýherja hf. Hann er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, M.Sc. í fjármálum frá Háskólanum í Reykjavík og löggiltur verðbréfamiðlari.

Gunnar var fjármálastjóri Iceland Express hf. 2011-2012 og fjármálastjóri Landic Property hf. frá 2006 til 2010. Áður hafði Gunnar starfað sem viðskiptastjóri og sérfræðingur hjá HSH Nordbank í Kaupmannahöfn, Verðbréfastofunni hf. og Sparisjóðabanka Íslands hf.

Ingimar

Ingimar G. Bjarnason

Ingimar G. Bjarnason hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Applicon á Íslandi frá nóvember 2008. Ingimar hóf störf á hugbúnaðarsviði Nýherja hf. í febrúarmánuði 1998 og starfaði þar og síðan hjá Applicon ehf. fram til ágústmánaðar 2006. Þá tók Ingimar við sem framkvæmdastjóri Applicon Solutions Ltd. í Bretlandi.

Ingimar lauk prófi í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og síðan MBA prófi frá IESE Viðskiptaháskólanum í Barcelona 2003.

Agust

Ágúst Einarsson

Ágúst Einarsson er framkvæmdastjóri Tempo. Hann hefur starfað hjá TM Software frá árinu 2003 og veitti félaginu forystu frá ársbyrjun 2007. Hann var áður framkvæmdastjóri TrackWell Software, Skyggnis og SAP og IBM deildar Nýherja.

Ágúst er með M.S. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskólanum í Álaborg og B.S. gráðu í vélaverkfræði frá sama háskóla.

Hakon

Hákon Sigurhansson

Hákon Sigurhansson er framkvæmdastjóri TM Software. Hann hefur starfað fyrir TM Software frá byrjun árs 2008, fyrst sem framkvæmdastjóri EMR heilbrigðislausna og síðar sem forstöðumaður Heilbrigðislausnasviðs TM Software. Áður starfaði Hákon meðal annars sem sjálfstæður ráðgjafi, stýrði sölu- og vörustjórnunarsviði og síðar þróunarsviði Trackwell Software og var yfirmaður upplýsingatæknimála dómsmálaráðuneytisins.

Hann er með MBA-próf frá ESCP viðskiptaháskólanum í París og M.Sc.-gráðu í rafeindaverkfræði frá Háskólanum í Álaborg.

Thorvaldur

Þorvaldur Þorláksson

Þorvaldur Þorláksson er framkvæmdastjóri Heildsölu og dreifingar hjá Nýherja. Þorvaldur var áður deildarstjóri Lausna og þjónustu hjá Nýherja. Hann hefur fjölbreytta reynslu úr íslensku atvinnulífi, leiddi meðal annars uppbyggingu og rekstur nýsköpunarhúss O2 fyrir Viðskiptaráð Íslands. Þá var hann framkvæmdastjóri SMI Iceland ehf. (Smáratorg) 2007-2009, framkvæmdastjóri Bónusvídeós ehf. 2003-2007 og markaðsstjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri Smáralindar á árunum 2000-2003.

Þorvaldur er rekstrarfræðingur frá Háskólanum á Bifröst.

Tomas

Tomas Wikström

Tomas Wikström hefur verið framkvæmdastjóri Applicon í Svíþjóð frá árinu 2012. Hann gekk til liðs við Applicon árið 2000 og hefur gegnt ýmsum störfum hjá félaginu á liðnum árum, þar á meðal verið fjármálastjóri þess. Tomas hefur reynslu sem forritari og hefur einnig starfað við verkefnastýringu í fjármálageiranum.

Tomas er með M.Sc. gráðu í eðlisverkfræði frá háskólanum í Uppsölum.

Nýherji

ÞJÓNUSTUFYRIRTÆKI Í UPPLÝSINGATÆKNI

Nýherji hf. er þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni og um leið móðurfélag samstæðunnar. Markmið starfsfólks Nýherja er að veita framúrskarandi þjónustu og sérfræðiþekkingu til viðskiptavina.

Tekjur félagsins á árinu námu 10.200 m.kr., sem er aukning um rúmlega 9% á milli ára, og afkoman var á áætlun.

Lausnaframboð Nýherja er viðamikið og nær til flestra sviða upplýsingatækni sem miða að því að uppfylla þarfir viðskiptavina. Lausnirnar eru eigin þróun fyrirtækisins ásamt aðlögun lausna frá sterkum samstarfsaðilum. Góð eftirspurn var eftir öllu lausnaframboði Nýherja á árinu.

Nýherji hefur í vaxandi mæli boðið ráðgjöf vegna hugbúnaðarleyfa og hugbúnaðarlausnir fyrir stjórnendur markaðsmála, öryggis- og gæðastýringar. Ágætur gangur var í sölu á slíkum lausnum, þar á meðal Tealeaf og QRadar frá IBM og Focal gæðastýringu. Góð sala var einnig í hugbúnaði, vélbúnaði og rekstrarsamningum fyrir hraðbanka. Aukin áhersla á hugbúnaðarlausnir leiddi til þess að Nýherji var valinn samstarfsaðili ársins hjá Microsoft í fyrsta skipti.

„Nýherji flutti hýsingarþjónustu sína í gagnaver Verne Global. Sú ráðstöfun skilaði nýjum verkefnum bæði hjá innlendum og erlendum viðskiptavinum.“

Rekstaröryggi og hagkvæmni í fyrirrúmi

Undanfarin misseri hefur mikil áhersla verið lögð á að byggja enn öflugri þjónustuinnviði hjá Nýherja, með verulegri fjárfestingu í ferlum, gæðastýringu og þjónustumenningu. Að auki hefur verið fjárfest í nýjum miðlægum rekstrarinnviðum sem hýstir eru í gagnaveri hjá Verne Global á Reykjanesi og nýtur fjöldi viðskiptavina Nýherja nú rekstraröryggis og hagkvæmni sem var áður óþekkt í íslensku upplýsingatækniumhverfi

„Nýherji er því vel í stakk búinn til að bregðast við auknum áhuga hjá íslenskum fyrirtækjum og stofnunum á úthýsingu rekstrarþátta, m.a. í fjármálastarfsemi þar sem miklar kröfur eru gerðar til öryggis.“
Gunnar Zoëga, framkvæmdastjóri Lausna og þjónustu hjá Nýherja.
„Aukin áhersla á hugbúnaðarlausnir leiddi til þess að Nýherji var valinn samstarfsaðili ársins hjá Microsoft í fyrsta skipti.“

Nýherji tók við rekstri upplýsingatæknikerfa Arion banka í lok fjórða ársfjórðungs, en um er að ræða rekstur allra miðlægra innviða og kerfa, tækniborðs og almennrar tækni- og vettvangsþjónustu fyrir bankann. Á þriðja tug sérfræðinga frá Arion banka hófu störf hjá Nýherja í kjölfarið. Horft er til þess að mörg fjármálafyrirtæki leita nú að leiðum til að hagræða í rekstri, m.a. með útvistun. Nýherji er í góðri aðstöðu til að sinna slíkri þjónustu á hagkvæman og öruggan hátt.

Ágæt sala var í PC búnaði frá Lenovo og hljóð- og myndlausnum til fyrirtækja og einstaklinga á árinu. Ennfremur jókst sala á hljóðlausnum frá Bose verulega.

Rekstur Nýherja hefur verið í ágætu jafnvægi þrjú síðustu ár, en á þeim tíma hefur eiginfjárstaða styrkst til muna. Þrátt fyrir ögrandi rekstrarumhverfi framundan, m.a. vegna samningsbundinna launahækkana, þá gerum við ráð fyrir að grunnrekstur samstæðunnar verði áfram stöðugur.

Rekstrarhorfur móðurfélags Nýherja eru góðar.

VIÐ LEYSUM MÁLIN

Applicon félögin

Applicon er norrænt ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki með áherslu á viðskiptahugbúnað. Applicon leggur áherslu á atvinnugreinar sem byggja á lausnum frá SAP, Calypso og Advent, ásamt eigin hugbúnaði.

Applicon félögin eru tvö, Applicon ehf. á Íslandi og Applicon AB í Svíþjóð. Mikil áhersla er lögð á samstarf á milli félaganna um þróun, sölu og þjónustu á lausnum fyrir norrænan markað auk þess að starfa náið með öðrum félögum innan samstæðunnar.

Applicon á Íslandi

Applicon á Íslandi sérhæfir sig í ráðgjöf, þjónustu og þróun á sviði viðskiptahugbúnaðar. Tekjur á árinu voru 1.099 m.kr., sem er svipað og árið á undan. Afkoma var undir væntingum, en það má einkum rekja til umtalsverðra fjárfestinga í þróun á mannauðs- og launalausnum sem er að fullu kostnaðarfærð. Á árinu bættust við 16 nýir viðskiptavinir á þessu sviði og útlit fyrir áframhaldandi góðan vöxt. Jafnframt voru stór innleiðingarverkefni fyrir nýja viðskiptavini kostnaðarsamari en gert var ráð fyrir þannig að tekjum vegna þeirra seinkaði.

Verkefni og gangsetningar á SAP HANA gengu vel, ekki síst fyrir bankakerfi Landshypotek og SBAB. Applicon er nú í fararbroddi á Norðurlöndum á sviði þekkingar á SAP HANA.

Applicon ehf. kom að nokkrum umfangsmiklum söluverkefnum, bæði á Íslandi og í Svíþjóð og munu sölu- og ráðgjafartekjur þeim tengdar byrja að skila sér á fyrstu mánuðum 2017.

„Á undanförnum árum hefur Applicon staðið fyrir umfangsmikilli þróun á nýjum vörum á sviði mannauðs og launalausna. Þessar lausnir teljast nú fullbúnar og eru nú þegar leiðandi í virkni og í frábærri stöðu sem framtíðarkerfi á íslenskum markaði.“
Ingimar Bjarnason, framkvæmdastjóri Applicon á Íslandi.

Reiknað er með hóflegri tekjuaukningu á næstu misserum og að afkoma verði mun betri en var á liðnu ári.

Góðar horfur í Svíþjóð

Rekstur Applicon AB í Svíþjóð gekk vel og voru tekjur og afkoma á áætlun. Tekjur námu 91 milljón SEK, sem er tæplega fjórðungsaukning á milli ára.

Vel hefur gengið að koma kjarnabankalausnum frá SAP og tengdum viðbótarlausnum frá Applicon ehf. á framfæri við sænsk fjármálafyrirtæki. Til viðbótar við umfangsmikla þjónustu og verkefni fyrir Landshypotek bankann þá var í september gerður tímamótasamningur um sölu og innleiðingu á kjarnabankakerfum fyrir SBAB Bank AB. Applicon mun sjá um innleiðingu kerfanna hjá bankanum og tengja þau við önnur kerfi og sænska greiðslumiðlun. Verkefnið er til þriggja ára og mun það skjóta enn styrkari stoðum undir þann rekstur sem Applicon hefur byggt upp síðustu ár sem leiðandi í innleiðingu, ráðgjöf og rekstri á alþjóðlegum kjarnabankalausnum.

„Tekjur námu 91 milljón SEK, sem er tæplega fjórðungsaukning á milli ára.“
Applicon2x

Að lokinni innleiðingu mun Applicon AB sjá um hugbúnaðarrekstur á kerfunum fyrir SBAB og hefur þá með höndum rekstur kjarnabankakerfa fyrir tvo af tíu stærstu bönkum Svíþjóðar, SBAB Bank og Landshypotek Bank. Að auki veitir Applicon viðskiptavinum ráðgjöf og þjónustu á tveimur öðrum sviðum, þ.e. Capital Markets og Leasing & Finance.

„Meginskýring á góðri afkomu félagsins í fyrra var betri nýting á útseldum tímum sérfræðinga, hærra tímaverð og aukin eftirspurn eftir sérfræðingum. Við erum nú í vænlegri stöðu til að styðja fleiri norræna banka í innleiðingu kjarnabankalausna sem standast nútíma kröfur, en margir þeirra huga nú að útskiptingu eldri og óskilvirkra bankakerfa.“
Tomas Wikström, framkvæmdastjóri Applicon í Svíþjóð.

Horfur á öllum sviðum eru góðar.

TM Software

Hugbúnaðarfyrirtækið TM Software sérhæfir sig í framleiðslu á eigin hugbúnaðarvörum og sérlausnum ásamt því að veita þjónustu og ráðgjöf sem þeim tengjast.

Á árinu voru 30 ár liðin frá stofnun Tölvumynda sem var upphafið að því sem TM Software er í dag. Á þessum 30 árum hefur félagið þróast og breyst, en alla tíð verið leiðandi í hugbúnaðarþróun á sínu sviði. Í dag vinnur félagið að þróun lausna fyrir mörg af öflugustu fyrirtækjum og stofnunum landsins. Á meðal þeirra eru lausnir í flug- og ferðaþjónustu, þjónustuvefsvæði fyrir fyrirtæki og stofnanir, vefverslanir, áheita- og góðgerðarvefir auk þess sem heilbrigðislausnir félagsins eru notaðar af nær öllum heilbrigðisstarfsmönnum landsins á hverjum degi.

Rekstur félagsins gekk vel og námu tekjur 1.163 m.kr. sem er 20% aukning á milli ára. Afkoma ársins var góð og yfir áætlunum.

TM Software kynnti nýtt skipulag í byrjun árs sem hefur skilað aukinni samlegð á milli sviða og stutt betur við vöruþróun og nýsköpun á meginsviðum félagsins, sem eru heilbrigðislausnir, ferðalausnir, þjónustusíður og sérlausnir.

Eitt af markmiðunum með aukinni áherslu á nýsköpun og vöruþróun er að auka vægi vörusölu í tekjum félagsins. Meðal annars í þessum tilgangi hélt það forritunarkeppni í lausnum fyrir ferðaþjónustuna undir nafninu Travel Hackathon ásamt því að halda reglulega nýsköpunardaga meðal starfsfólks.

„Rekstur félagsins gekk vel og námu tekjur 1.163 m.kr. sem er 20% aukning á milli ára.“
„TM Software hefur fundið fyrir miklum áhuga á lausnum félagsins frá aðilum í ferðaþjónustu og ætlar sér að veita þessum vaxandi markaði enn betri þjónustu með nýjum vörum sem verða kynntar á fyrri hluta árs 2017.“
Hákon Sigurhansson, framkvæmdastjóri TM Software.

Horfur í rekstri TM Software eru góðar.

Tempo

Hugbúnaðarfyrirtækið Tempo þróar tímaskráningar- og verkefnastjórnunarlausnir fyrir JIRA kerfið frá Atlassian.

Tempo þróar lausnir til tímaskráningar, áætlunargerðar og verkefnasumsjónar sem seldar eru sem áskriftarþjónusta (SaaS) til nálægt 10.000 viðskiptavina í yfir 100 löndum. Tekjur á árinu námu ríflega 13 milljónum USD og jukust um 40% á milli ára.

Þrátt fyrir ágæta afkomu hafði styrking krónunnar á árinu neikvæð áhrif á rekstur. Allar tekjur eru í Bandaríkjadölum en kostnaður að mestu enn í íslenskum krónum. Á árinu var því lögð áhersla á uppbyggingu starfsemi Tempo erlendis, með opnun skrifstofu í San Francisco og fjölgun starfsfólks í Montreal. Hjá fyrirtækinu starfa nú um 95 manns, þar af tæplega 20 í Montreal og San Francisco.

Gert er ráð fyrir frekari uppbyggingu starfsemi erlendis, einkum í Montreal, þar sem rekstrarumhverfi er mjög hagstætt hugbúnaðarfyrirtækjum sem leggja áherslu á vöruþróun og nýsköpun.
Ágúst Einarsson, framkvæmdastjóri Tempo.
Tempo2x

Á árinu 2016 var fjárfest í uppbyggingu á tölvuskýsinnviðum sem munu til lengri tíma gera Tempo kleift að bjóða lausnir inn á ný markaðssvæði og ný sölutorg.

„40% tekjuvöxtur og aukin umsvif í Montreal einkenndu árið 2016.“

Á síðastliðnu ári réði Nýherji hf. AGC Partners LLC til ráðgjafar og stuðnings við undirbúning á mögulegu söluferli á Tempo ehf. Frekari ákvarðanir um hvort af söluferli verður, tímasetningar eða útfærslu, liggja ekki fyrir.

Áfram er gert ráð fyrir kröftugum vexti tekna Tempo.

Mannauður

Starfsfólk Nýherja og dótturfélaga skipar höfuðsess í velgengni fyrirtækjanna en mannauðsstefna Nýherja er grundvölluð á þeirri megináherslu að starfsmenn njóti ánægju og velferðar í störfum sínum. Hjá samstæðunni starfar fjölbreyttur hópur af hæfu, áreiðanlegu og traustu starfsfólki, sem sýnir frumkvæði í starfi, veitir framúrskarandi þjónustu og tekur virkan þátt í framþróun samstæðunnar í síbreytilegu umhverfi.

Þekking starfsmanna ásamt góðum starfsanda og starfsánægju skipa höfuðsess hjá samstæðunni. Þar að auki er lögð áhersla á að starfsmenn fái tækifæri til að þroskast og þróast í starfi. Starfsfólkið og velferð þess er lykilatriði í því að samstæðan dafni og þroskist, öllum til hagsbóta.

Stöðugildi og kynjahlutfall

Þegar horft er til samstæðunnar í heild var nokkur fjölgun í hópi starfsmanna á árinu. Í upphafi árs var fjöldi stöðugilda hjá samstæðunni 506 en í lok árs voru stöðugildin 525. Stöðugildum fjölgaði því um 19 á árinu þegar litið er til samstæðunnar. Hjá Tempo var fjölgunin mest eða 18 stöðugildi á árinu, þar af var aukningin mest á starfsstöð Tempo í Kanada. Hjá Nýherja fækkaði hins vegar stöðugildum um 11 á árinu 2016, en hjá TM Software var fjölgun um 7 stöðugildi og 2 stöðugildi bættust við hjá Applicon á Íslandi. Stöðugildi hjá Applicon í Svíþjóð héldust nokkuð óbreytt milli ára.

Kynjahlutfall í samstæðunni skiptist þannig að 26% starfsmanna eru konur og 74% karlar. Konum hefur fjölgað um 2% milli ára hjá félögum samstæðunnar á Íslandi. Það hefur loðað við upplýsingatæknigeirann að karlar hafa verið í meirihluta, en samstæðan hefur einsett sér með skýrri stefnu og framkvæmdaáætlun jafnréttismála að vinna áfram að því langtímamarkmiði að fjölga konum innan samstæðunnar.

Samskipti og upplýsingagjöf

Til að efla samskipti og upplýsingagjöf þvert á samstæðuna tóku Nýherji og dótturfélög Workplace by Facebook í notkun í byrjun haustsins. Workplace byggir á sömu eiginleikum og Facebook, en er sniðið að fyrirtækjaumhverfi. Nýherjafélögin voru með fyrstu fyrirtækjum á Íslandi til að taka þennan samskiptamiðil í notkun. Með innleiðingu á Workplace er búið að skapa enn betri farveg til þess að efla frekar samvinnu innan og á milli félaga í samstæðunni.

Þekking, hæfni og fyrsta flokks þjónusta

Uppbygging þekkingar er sameiginlegt hagsmunamál starfsfólks og samstæðunnar. Samstæðan leggur áherslu á að starfsfólk hafi tækifæri til að efla faglega og persónulega hæfni sína.

Samhliða auknum áherslum á þjónustu var lögð sérstök áhersla á þjónustuþjálfun hjá samstæðunni sem meirihluti starfsmanna sótti. Þjálfun og fræðsla fer fram með fjölbreyttum hætti hjá samstæðunni og getur falist í þátttöku í rafrænum eða staðbundnum námskeiðum, fræðslufundum, vinnustofum og ráðstefnum en einnig í daglegri miðlun þekkingar á milli starfsmanna við úrlausn verkefna.

VIÐ ELSKUM GOTT KAFFI

Hreyfing, heilsa og vistvænar samgöngur

Eins og undanfarin ár voru starfsmenn Nýherjasamstæðunnar duglegir þegar kom að hreyfingu, vistvænum samgöngum og þátttöku í keppnum sem tengjast hreyfingu. Fjöldi starfsmanna tók sem fyrr þátt í Hjólað í vinnuna og Nýherji átti 10 manna lið í WOW Cyclothon keppninni og náði það glæsilegum árangri.

Nýherjasamstæðan styrkir starfsmenn sína líka til þátttöku í Reykjavíkurmaraþoninu. Um 72 starfsmenn tóku þátt í ár og hlupu samtals um 915 km og safnaði starfsfólk okkar ríflega 460 þúsundum kr. til góðgerðarmála. Samstæðan lagði til 500 kr. á hvern km sem fólk hljóp.

Einnig tók fjöldi starfsmanna þátt í skemmtilegasta hlaupi ársins, The Color Run, en Nýherji var meðal styrktaraðila þeirrar keppni.

Wow cyclothon

Mikil vakning hefur átt sér hjá starfsmönnum samstæðunnar þegar kemur að vistvænum samgöngum. Á árinu 2016 voru samtals 143 starfsmenn með virka samgöngusamninga sem er um 30% allra starfsmanna samstæðunnar á Íslandi. Starfsmönnum sem stunda vistvænar samgöngur hefur fjölgað um 60% milli ára en um 90 starfsmenn höfðu skuldbundið sig til vistvænna samgangna á árinu á undan.

Félagslíf og aðstaða

Hjá samstæðunni starfar skemmtilegur hópur fólks sem tekur virkan þátt í fjölmörgum viðburðum sem boðið er upp á. Starfsmannafélögin og klúbbarnir innan samstæðunnar eru mjög virkir auk þess sem fyrirtækið stendur reglulega fyrir viðburðum. Meðal starfsmannaviðburða á árinu má nefna vel heppnaða árshátíð, vorferðir, golfmót, fjölskyldudag, haustfagnað, jólahlaðborð og fleira. Einnig var börnum starfsmanna boðið með í vinnuna þegar jólafrí hófst í grunnskólum landsins við frábærar undirtektir barnanna og foreldranna.

Á árinu var aðstaða starfsmanna í kjallaranum í Borgartúni stækkuð til muna sem leiddi til bættrar aðstöðu til funda, samveru og félagslífs. Áfram er því unnið að því markmiði að skapa vettvang sem styður við félagslíf og samveru og bætist þessi aðstaða við kaffihúsið okkar sem hefur sannað gildi sitt.

Mannaudur2x

Vinnustaðagreining framkvæmd

Vinnustaðagreining var framkvæmd hjá félögum samstæðunnar líkt og fyrri ár. Yfir 90% starfsmanna tóku þátt í könnuninni, en markmiðið er að greina það sem vel er gert og hvað má betur fara í starfsumhverfi innan samstæðunnar. Niðurstöður könnunarinnar voru virkilega ánægjulegar, þar sem öll félög samstæðunnar hækka í lykilmælikvörðum milli ára. Langtímamarkmið okkar er að vera einn eftirsóknarverðasti vinnustaður í upplýsingatækni á Íslandi og sýndu niðurstöður könnunarinnar 2016 að við þokumst í rétta átt.

NÝHERJI Í SAMFÉLAGINU


Samfélagsstefna Nýherja byggir á tengslum við ungt fólk, menntun og nýsköpun, sem hafa verið grunnþættir í þeim verkefnum sem félagið hefur styrkt um nokkurt skeið.

Samfélagsstefna Nýherja byggir áfram á þessum áherslum en þær eru nánar útfærðar í eftirfarandi fjórum meginstoðum:

Góðir stjórnarhættir

Stjórnarhættir

Stjórn Nýherja hf. leitast við að viðhalda góðum stjórnarháttum og fylgja „Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja“ sem Viðskiptaráð Íslands, NASDAQ OMX Iceland og Samtök atvinnulífsins hafa gefið út.

Stjórnun

Gildi og stefnumið

Einkunnarorð Nýherjasamstæðunnar eru: samsterk, fagdjörf og þjónustframsýn. Þessi frumlegu nýyrði tengjast upprunalegri nafngift félagsins og vísa til þeirra vinnubragða, sem eru hverju framsæknu þjónustufyrirtæki mikilvæg, og felast í samstarfi, fagmennsku, dirfsku og frumkvæði.

Gildi

Leiðarljós í starfi félagsins eru þau að Nýherji:

Mannauður

Hæfasta starfsfólk í hverri stöðu

Nýherji leggur ríka áherslu á að ráða hæfasta starfsfólk sem völ er á. Mikil samkeppni er um starfsfólk í UT og leggur Nýherji mikið upp úr faglegum vinnubrögðum við ráðningar og að starfsfólki bjóðist aðlaðandi vinnuumhverfi og samkeppnishæf kjör.

Sérstaða með þekkingu starfsfólks

Nýherji kappkostar að hjá fyrirtækinu starfi ætíð hæft og vel þjálfað starfsfólk og er miklum fjármunum varið til uppbyggingar á þekkingu og færni starfsmanna. Þekking starfsmanna og færni ræður miklu um stöðu gagnvart viðskiptavinum, birgjum og öðrum samstarfsaðilum og hefur Nýherji lagt áherslu á að skapa sér sérstöðu með þekkingu starfsmanna.

Jafnrétti í fyrirrúmi

Það er markmið Nýherja að stuðla að jöfnum tækifærum, m.a. óháð kyni, aldri eða kynþætti. Með virkri jafnréttisstefnu og áætlun er stuðlað að því að félagið nýti hæfileika og færni starfsfólks á sem skilvirkastan hátt, félaginu og starfsfólki til heilla.

Leiðbeinandi siðareglur

Starfsfólk Nýherja hefur sett sér siðareglur, sem vísa til væntinga um vinnulag gagnvart viðskiptavinum, samstarfsfólki, eigendum, samkeppnisaðilum og samfélagi.

Umhverfi

Nýherji stendur fyrir virku félagsstarfi, m.a. með sameiginlegu starfsmannafélagi Nýherjasamstæðunnar (STAFN) og starfsmannafélögum fyrirtækja samstæðunnar.

Græn skref

Nýherji er eitt af þeim fyrirtækjum á Íslandi sem hefur undirritað yfirlýsingu um loftlagsmál og þannig skuldbundið sig til að vinna að aðgerðum sem draga úr losun gróðurhúslofttegunda og minnka myndun úrgangs. Nýherji er auk þess með virka stefnu um samfélagslega ábyrgð og umhverfisstefnu, þar sem græn markmið fyrirtækisins eru nánar útfærð. Á árinu voru tekin stór skref í útrýmingu einnota umbúða sem voru í tíðri notkun. Notkun á einnota umbúðum fór úr 140.000 umbúðum á ári niður í 12.000 umbúðir á ári.

Styrkir við góð málefni

Það er stefna Nýherja að efla tengsl tæknigreina á mismunandi skólastigum við atvinnulífið, ýta undir nýsköpun í tæknigreinum, hvetja nemendur til að hefja nám í slíkum greinum, efla stoðir slíks náms og tryggja nægilegt framboð framúrskarandi tæknimenntaðs starfsfólks á komandi árum.

Nýherji styrkir því verkefni sem hafa það markmið að efla nýsköpun og hvetja ungt fólk til þátttöku í tæknigreinum. Meðal verkefna sem styrkt hafa verið eru:

Nánar um samfélagsstefnu Nýherja

Stjórn og stjórnar­hættir

Stjórn Nýherja fjallar reglubundið um stjórnarhætti og heldur árlega sérstakan fund um störf stjórnar og stjórnarhætti. Stjórnin telur mikilvægt að stjórnarhættir séu stöðugt endurmetnir til að mæta breyttum lögum og reglum og þróun á sviði stjórnunar og stjórnarhátta.

Stjórnarhættir

Stjórn Nýherja hf. leitast við að viðhalda stjórnarháttum og fylgja „Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja“, sem Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq OMX Iceland og Samtök atvinnulífsins gáfu út í endurskoðaðri útgáfu í júní 2015. Stjórnin hefur sett sér ítarlegar starfsreglur þar sem valdsvið hennar er skilgreint og verksvið gagnvart forstjóra. Í þeim er meðal annars að finna reglur um fundarsköp, fundargerðir stjórnar, ítarlegar reglur um hæfi stjórnarmanna til þátttöku við afgreiðslu mála og reglur um þagnarskyldu. Þar eru einnig reglur um upplýsingagjöf forstjóra gagnvart stjórn og ákvörðunarvald stjórnar, en undirritun meirihluta stjórnarmanna skuldbindur félagið.

Núgildandi starfsreglur stjórnar voru samþykktar á stjórnarfundi 26. ágúst 2015 og eru þær aðgengilegar á vef félagsins, www.nyherji.is.

Stjórn hefur skipað endurskoðunarnefnd og eru reglur nefndarinnar aðgengilegar á heimasíðu félagsins. Í endurskoðunarnefnd eiga nú sæti stjórnarformaður, meðstjórnandi og utanaðkomandi löggiltur endurskoðandi. Meginhlutverk og ábyrgð nefndarinnar er að hafa eftirlit með vinnuferlum við gerð reikningsskila, fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits félagsins, innri endurskoðun og ef við á áhættustýringu og öðrum eftirlitsaðgerðum. Auk þess leggur nefndin fram tillögur til stjórnar um val á endurskoðanda félagsins auk þess að meta óhæði endurskoðanda og hafa eftirlit með störfum hans. Stjórn hefur jafnframt skipað starfskjaranefnd og tækninefnd sem eru stjórn og stjórnendum til ráðgjafar um starfskjarastefnu og mál er tengjast launastefnu og tæknilegu umhverfi Nýherja. Regluvörður, skipaður af stjórn, hefur umsjón með að reglum um innherjaupplýsingar og viðskipti innherja sé fylgt. Stjórn hefur ekki talið þörf á að skipa tilnefningarnefnd.

Á árinu 2016 voru haldnir 14 stjórnarfundir og 7 fundir í endurskoðunarnefnd, auk funda í starfskjaranefnd og tækninefnd. Meirihluti stjórnar og nefnda hefur mætt á alla fundi. Endurskoðunarnefnd boðar endurskoðendur félagsins á fundi þegar tilefni er til, auk þess sem þeir mæta á stjórnarfundi vegna ársuppgjörs.

Stjórn Nýherja hf.

Samkvæmt samþykktum félagsins fer stjórn Nýherja hf. með æðsta vald í málefnum félagsins á milli hluthafafunda. Stjórnin ákveður stefnu Nýherjasamstæðunnar og fylgir eftir meginverkefnum í starfsemi samstæðunnar. Fyrir stjórn er lögð rekstrar- og fjárfestingaáætlun til staðfestingar og fylgist stjórnin reglubundið með framvindu þeirra áætlana innan ársins. Stjórn ákveður skipulag og fylgir því eftir að starfsemi félagsins fari fram í samræmi við samþykktir hennar. Stjórnin skal tryggja að nægilegt eftirlit sé með meðferð fjármuna félagsins og að góð regla sé á bókhaldi og uppgjöri.

Stjorn
Efri röð frá vinstri: Loftur Bjarni Gíslason, Ívar Kristjánsson, Benedikt Jóhannesson (sagði sig úr stjórn í desember 2016) og Guðmundur Jóhann Jónsson.
Neðri röð frá vinstri: Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja, Emilía Þórðardóttir og Hildur Dungal.

Í stjórn Nýherja sitja fimm menn og einn til vara og er stjórnin kjörin á aðalfundi til eins árs í senn. Samkvæmt samþykktum skulu þeir sem hyggjast gefa kost á sér til setu í stjórn félagsins tilkynna það skriflega til stjórnar að minnsta kosti fimm sólarhringum fyrir upphaf aðalfundar og eru þeir einir kjörgengir, sem þannig hafa gefið kost á sér. Formaður kveður stjórn til fundar og stýrir stjórnarfundum. Fundi skal halda hvenær sem formaður telur þess þörf, en að auki er honum skylt að boða stjórnarfund að kröfu eins stjórnarmanns eða forstjóra. Stjórnarfundir eru því aðeins lögmætir að mættir séu þrír stjórnarmenn eða fleiri.

Hlutverk forstjóra

Stjórn Nýherja hf. ræður forstjóra félagsins og ákveður starfskjör hans. Forstjóri er ábyrgur fyrir daglegri starfsemi félagsins í samræmi við samþykktir þess, stefnu og ákvörðun stjórnar. Forstjóri skal vinna að stefnumótun og framþróun félagsins ásamt því að skipuleggja og fylgja eftir daglegum rekstri þess. Þá er hlutverk forstjóra að tryggja að starfsemi félagsins sé í samræmi við gildandi löggjöf og reglur hverju sinni og fylgja því eftir að starfsemi dótturfélaga sé með sama hætti.

Hluthafafundir

Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum lögmætra hluthafafunda. Aðalfundur skal haldinn fyrir lok júnímánaðar ár hvert og hluthafafundi skal halda eftir ákvörðun stjórnar eða að kröfu kjörins endurskoðanda eða hluthafa, sem ráða að minnsta kosti 1/20 hlutafjár í félaginu. Krafa um hluthafafund skal gerð skriflega, fundarefni tilgreint og fundur þá boðaður innan lögmæts frests. Til hluthafafundar skal boða með birtingu auglýsingar í dagblaði eða með öðrum sambærilegum hætti. Aðalfund skal boða með minnst þriggja vikna og mest fjögurra vikna fyrirvara samkvæmt breytingum á hlutafélagalögum frá 19. desember 2009. Í fundarboði skal gerð grein fyrir fundarefni og þeim skjölum og tillögum sem lögð verða fyrir fundinn. Á hluthafafundum fylgir eitt atkvæði hverjum hlut í félaginu.

Breytingar á samþykktum félagsins

Samþykktum félagsins má einungis breyta á löglegum hluthafafundi þess og skal þess rækilega getið í fundarboði að fyrir liggi tillaga um breytingar á samþykktum og í hverju hún felist í meginatriðum. Ákvörðun verður því aðeins gild að hún njóti minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða svo og samþykkis hluthafa sem ráða 2/3 hlutum þess hlutafjár sem farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundum. Síðast voru gerðar breytingar á samþykktum Nýherja hf. á aðalfundi félagsins 4. mars 2016.

Endurskoðendur

Endurskoðendur félagsins eru kjörnir á aðalfundi til eins árs í senn. Á aðalfundi 2016 var KPMG ehf. kjörinn endurskoðandi félagsins og er KPMG ehf. einnig endurskoðandi allra dótturfélaga félagsins á Íslandi. KPMG annast endurskoðun á dótturfélögum í Svíþjóð og í Kanada

Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Nýherji er fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum samkvæmt mati Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands, að undangenginni ítarlegri úttekt Capacent á haustmánuðum 2014.

10 stærstu hluthafar
nýherja 31. 12. 2016

383 hluthafar

Vænting hf. 67.980.832 15,1%
Lífeyrissjóður verslunarmanna 46.119.303 10,2%
Birta lífeyrissjóður 35.264.981 7,8%
Kvika banki hf. 34.039.500 7.6%
Fiskveiðahlutafélagið Venus hf. 26.778.483 6,0%
Landsbankinn hf. 24.029.360 5,3%
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. 21.071.781 4,7%
Sameinaði lífeyrissjóðurinn 17.759.006 3,9%
Vátryggingafélag Íslands hf. 12.493.049 2,8%
HEF kapital ehf 11.784.086 2,6%